Í gær hóf göngu sína við Héraðsdóm Óslóar í Noregi aðalmeðferð máls sem telst sögulegt þar í landi. Í því sækja Ingelin Hauge og Philip Green héraðssaksóknarar að vélhjólaklúbbnum Satudarah og freista þess að fá starfsemi hans bannaða með dómi. Samkvæmt upplýsingum lögreglu eru félagar í klúbbnum eitthvað á annan tug en hann er hollenskur að uppruna, stofnaður í Moordrecht þar í landi árið 1990.
Heldur ákæruvaldið því fram að Satudarah-félagar stundi skipulagða glæpastarfsemi og bendir máli sínu til stuðnings á hnífaárásir, skotbardaga úti á götu í Ósló og fleiri lögbrot. Meðal gagna málsins er ljósmynd af samfélagsmiðlinum TikTok er sýnir mann í einkennisfatnaði klúbbsins með stóran hníf á lofti og var til umræðu í héraðsdómi í gær.
„Þetta er liður í því að byggja upp orðspor klúbbsins, að þeir séu „bad guys“. Hann stillir sér þarna upp með stóran hníf. Ég held að það sé ekki vegna þess að hann er skáti,“ sagði Mats Bjørnstad, yfirlögregluþjónn í norsku rannsóknarlögreglunni Kripos, fyrir dómi í gær en hann hefur afbrotamál tengd vélhjólaklúbbum á sinni könnu og var fyrsta vitni saksóknara.
Fyrrverandi formaður Satudarah í Ósló kom fyrir dóminn og bar sakir af félagsskapnum fyrir hnífamyndina. „Hann var á reynslutíma í klúbbnum. Eftir að þessi mynd birtist var hann rekinn úr honum,“ hélt formaðurinn fyrrverandi fram.
Grundvöllur ákæruvaldsins eru ný lög frá 2021 sem heimila að starfsemi glæpasamtaka hvers kyns sé bönnuð með dómi og er mál Satudarah fyrsta dómsmálið þar sem lög þessi koma til kastanna.
Fulltrúi Satudarah fyrir héraðsdómi er maður á sextugsaldri frá Rogaland sem hefur lögmenn klúbbsins sér til fulltingis, þá John Christian Elden og Usama Ahmad frá Elden Advokatfirma í Ósló. Þeir lögmenn hafa nú þrjá daga fyrir rétti til að sannfæra dómsvaldið um að engin nauðsyn sé á að banna starfsemi Satudarah.
„Við munum færa rök fyrir því að þarna búi raunverulegur áhugi á vélhjólum að baki,“ sagði Ahmad fyrir rétti í gær þrátt fyrir nýlega úttekt norska ríkisútvarpsins NRK á tólf félögum klúbbsins. Af þeim reyndust aðeins þrír vera eigendur vélhjóla.