Segir áróður í Rússlandi vegna kjarnorkustríðs

Muratov (til hægri) ásamt Mariu Ressa með Nóbelsverðlaunin í desember …
Muratov (til hægri) ásamt Mariu Ressa með Nóbelsverðlaunin í desember árið 2021. AFP/Odd Andersen

Rússneski blaðamaðurinn Dmitrí Muratov segir rússnesk stjórnvöld reyna að breyta viðhorfi almennings í garð kjarnorkustríðs. Tvær kynslóðir Rússa hafi lifað án kjarnorkuógnar en núna séu tímarnir breyttir.

„Við sjáum hvernig áróður ríkisins snýr að því að undirbúa fólk í að halda að kjarnorkustríð sé ekkert slæmt,“ sagði hann við BBC.

„Á sjónvarpsstöðvum hérna er talað um kjarnorkustríð og kjarnorkuvopn eins og verið sé að auglýsa dýramat,“ bætti hann við.

„Þau tilkynna: „Við erum með þessa og hina eldflaugina og enn aðra tegund af eldflaug“. Þau tala um Bretland og Frakkland sem skotmörk, um að valda kjarnorku-flóðbylgju sem þurrkar út Bandaríkin. Hvers vegna segja þau þetta? Til að fólk sé tilbúið.“

Vladimír Pútín í gær.
Vladimír Pútín í gær. AFP/Gavriil Grigorov

„Mun Pútín ýta á kjarnorkuhnappinn?“

Muratov hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2021 ásamt filippseyska blaðamanninum Mariu Ressa. Hann er ritstjóri óháða dagblaðsins Novaya Gazeta en varð að stöðva útgáfu þess eftir að hafa fengið aðvörun frá rússneskum stjórnvöldum. 

„Mun Pútín ýta á kjarnorkuhnappinn eða gerir hann það ekki? Hver veit? Enginn veit þetta. Það er ekki nokkur manneskja sem veit það fyrir víst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert