Rúmenskur dómari hefur kveðið á um að bræðrunum Andrew Tate og Tristan Tate skuli sleppt úr varðhaldi lögreglu þegar í stað og færðir í stofufangelsi. Núverandi varðhald yfir mönnunum átti að renna út þann 29. apríl næstkomandi.
Andrew Tate er vel þekktur á samfélagsmiðlum og hefur verið bannaður á þeim mörgum en hann hefur gjarnan deilt skoðunum sem einkennast af kvenhatri og eitraðri karlmennsku.
Bræðurnir tveir voru handteknir í Rúmeníu 30. desember síðastliðinn. Mennirnir eru grunaðir um kynferðisbrot og mansal. Þá eru þeir grunaðir um að hafa staðið að skipulagðri glæpastarfsemi, sem fólst meðal annars í því að konur voru neyddar til þess að taka þátt í framleiðslu klámmyndbanda.
Þeir hafa neitað sök í málinu.