Frans páfi var útskrifaður af sjúkrahúsi í dag eftir að hafa verið lagður inn vegna öndunarfærasýkingar á miðvikudaginn. Hann leggur leið sína núna aftur í Vatíkanið þar sem hann mun undirbúa sig fyrir dymbilvikuna og páska.
Páfinn var í góðu skapi og kíminn þegar hann yfirgaf Policlinico A. Gemelli sjúkrahúsið í Róm og var stutt í grínið þegar hann ræddi við margmenni sem hafði safnast saman til að taka á móti páfanum. Spurður hvernig honum liði svaraði Frans með stóru brosi: „Ég er ennþá lifandi.“
Á sjúkrahúsinu í gær heimsótti páfinn krabbameinsdeild barna á spítalanum og gaf börnum páskaegg og skírði vikugamlan dreng. Áður en hann yfirgaf sjúkrahúsið í dag veitti hann veiku fólki á sjúkrahúsinu blessun sína og stoppaði á leið sinni út til að bjóða faðmlög og biðja með foreldrum sem höfðu misst dóttur sína.
Miklar áhyggjur hafa verið til staðar meðal almennings og biskupa á Ítalíu vegna heilsu páfans en hann hefur þegar undirritað yfirlýsingu um afsögn úr embætti verði hann of veikur til þess að sinna skyldum sínum.