Að minnsta kosti ellefu eru látnir og enn fleiri slasaðir vegna fárviðris er gengur nú yfir suðurríki og miðvesturríki Bandaríkjanna.
Fjölmargir eru fastir á heimilum sínum og hefur veðrið eyðilagt fjöldann allan af byggingum og innviðum. Búist er við því að veðrið fari versnandi með deginum.
Fréttastofa CNN greinir frá þessu.
Óveðrið hófst í gær en þá var tilkynnt um meira en 50 hvirfilbylji í að minnsta kosti sjö ríkjum. Þar með talið í Arkansas en þar létust fimm manns í gær en að minnsta kosti 50 manns voru lagðir inn á spítala þar.
Þrír létust í ríkinu Indíana vegna storms í gærkvöldi en mörg heimili eyðilögðust og jafnframt slökkviliðsstöð.
Í Alabama lést ein manneskja en fimm slösuðust í nótt og á sama tíma lést ein manneskja í Mississippi og fjórir slösuðust.
Þá lést einn þegar að þak leikhúss gaf sig þar sem þungarokkstónleikar fóru fram í Illinois. Fjölmennt var á tónleikunum og slösuðust tugir tónleikagesta. Fimm eru þungt haldnir.