Rússar hafa tekið við formennsku öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna fyrir aprílmánuð en þau fimmtán lönd sem öryggisráðið samanstendur af skiptast á að vera í formennsku í mánuð í senn.
Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, segir formennsku Rússlands í ráðinu vera „versta aprílgabb allra tíma.“
Fréttastofa CNN greinir frá þessu.
„Landið sem brýtur gegn öllum reglum um þjóðaröryggi á kerfisbundinn hátt fer nú með formennsku yfir ráði sem hefur það eina hlutverk að standa vörð um þjóðaröryggi,“ segir Kuleba.
Síðast þegar Rússland fór með formennsku öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna var í febrúar 2022 en eins og frægt er hófst innrás Rússlands í Úkraínu þann 24. febrúar 2022.
Þá hafa ýmsir bent á að það skjóti skökku við að Rússland fari með formennsku ráðsins þegar að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hefur gefið út handtökuheimild á Vladimír Pútín Rússlandsforseta vegna stríðsglæpa í Úkraínu.