Marlene Schiappa, félagsmálaráðherra Frakklands, hefur fengið á sig töluverða gagnrýni eftir að hún birtist á forsíðu tímaritsins Playboy, þar sem hún var einnig í 12 blaðsíðna viðtali. Schiappa ræddi þar meðal annars um réttindi kvenna og hinsegin fólks og þungunarrof.
Schiappa, sem reyndar var fullklædd á forsíðunni, er öflugur femínisti og hefur verið þekkt fyrir að stuða fólk og þá sérstaklega hægrisinnaða kollega sína í stjórnmálunum. En nú telur hennar eigin forsætisráðherra hana hafa gengið of langt og gert mistök með útspili sínu.
Elisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands, tók félagsmálaráðherrann á teppið og sagði þetta „alls ekki viðeigandi, og þá sérstaklega ekki á þessum tímapunkti,“ samkvæmt heimildarmanni AFP-fréttastofunnar. Vísaði Borne þar til mikillar ónægju meðal almennings og verkfalla vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um hækkun eftirlaunaaldurs í Frakklandi.
Útspil Schiappa hefur einnig farið í taugarnar á fleiri samráðherrum í ríkisstjórn sem finnst hún senda röng skilaboð með því að birtast á forsíðu glanstímarits klædd dýrum hönnunarkjólum. Einhverjir töldu jafnvel að um aprílgabb væri að ræða fyrst þegar þeir fréttu af málinu.
Félagsmálaráherrann virðist hins vegar standa með sjálfri sér í þessu máli og skrifaði færslu á Twitter í gær þar sem kom fram að hún vildi standa vörð um rétt kvenna til að gera það sem þær vilja við líkama sinn.
„Að verja rétt kvenna til að ráða yfir sínum eigin líkama og hvað þær vilja gera við hann, hvar sem er og hvenær sem er. Í Frakklandi eru konur frjálsar. Hvort sem það fer í taugarnar á afturhaldsömum hræsnurum eða ekki,“ skrifaði Schiappa.