Íbúar í París í Frakklandi kjósa í dag um hvort að banna eigi notkun svokallaðra rafskútna eða rafhlaupahjóla.
Áður hafði borgarstjórn Parísar fagnað komu rafskútna og litið á ferðamátann sem loftlagsvænan kost sem mengar minna en ökutæki, en síðan að rafskútur voru fyrst aðgengilegar til leigu fyrir almenning árið 2018 hafa fleiri og fleiri reglur verið samþykktar sem takmarka notkun þeirra.
Til að mynda má aðeins leggja þeim eða skilja þær eftir á ákveðnum svæðum. Þá hefur hámarkshraði einnig verið takmarkaður og fjöldi notenda. Þá hafa banaslys og kvartanir frá gangandi vegfarendum sett strik í reikninginn og er ferðamátinn álitinn af mörgum hættulegur.
Íbúar í París geta í dag kosið á 21 kjörstað víðs vegar um borgina en litið er á niðurstöðu kosninganna sem ráðgefandi álit frá almenningi frekar en að niðurstaðan leiði til lagabreytinga.
Þess ber að geta að kosningin tekur aðeins til rafskútna sem hægt er að leigja í gegnum fyrirtæki á borð við Lime, Dott og Tier sem halda flest úti smáforritum en hefur ekki áhrif á rafskútur í einkaeigu.
Um 100 þúsund ferðir eru farnar á rafskútum á hverjum degi í Frakklandi og hægt er að nálgast þær í 200 bæjum og borgum. Clement Beaune, samgönguráðherra Frakklands, reiknar með því að niðurstaða kosninganna verði bann gegn rafskútum. Niðurstöðu úr kosningunni má vænta um klukkan átta í kvöld.