Atli Steinn Guðmundsson
skrifar frá Tønsberg
„Úkraína hefur mikla þörf fyrir stórskotaliðs-skotfæri og við leggjum það sem við getum af mörkum,“ segir í sameiginlegri fréttatilkynningu varnarmálaráðuneyta Danmerkur og Noregs sem nú senda 8.000 155 millimetra fallbyssukúlur til Úkraínu til að styrkja varnir landsins í glímu þess við rússneska innrásarherinn.
Haft er eftir norska varnarmálaráðherranum Bjørn Arild Gram í tilkynningunni að Norðmenn hafi látið mikið af hendi rakna til Úkraínumanna árið 2022 og muni sá stuðningur halda áfram um ókomin ár.
Starfsbróðir hans í Danmörku, Troels Lund Poulsen, starfandi ráðherra í fjarveru Jakobs Ellemanns-Jensens, sem er í veikindaleyfi, segir að Danir, ásamt öðrum Atlantshafsbandalags- og Evrópusambandsríkjum, leggi fram ýmsa hernaðartengda aðstoð. „Samstarf okkar við Noreg er þýðingarmikið dæmi um þetta,“ segir Poulsen.
Sjálfar fallbyssukúlurnar koma frá Noregi en Danir leggja til hvellhettur og púðurpoka, að sögn norska varnarmálaráðuneytisins. Með þessari sendingu hafa Danir veitt Úkraínumönnum stuðning sem nemur 6,2 milljörðum danskra króna, jafnvirði 123 milljarða íslenskra króna og munu þeir hafa samráð við Norðmenn áfram um hvernig frekar megi styðja við bakið á stríðandi fylkingum og almenningi í Úkraínu.