Parísarbúar vilja banna leigu á rafskútum í borginni samkvæmt niðurstöðu atkvæðagreiðslu borgarstjórnar.
BBC greinir frá því að 90% þeirra sem greiddu atkvæði vilji banna rafskúturnar.
Af 1.4 milljón Parísarbúum greiddu þó einungis 103 þúsund atkvæði, eða um 8% íbúa. 91.300 voru fylgjandi banninu.
Áður hafði borgarstjórn Parísar fagnað komu rafskútna og litið á ferðamátann sem loftslagsvænan kost sem mengar minna en bifreiðar, en síðan að rafskútur voru fyrst aðgengilegar til leigu fyrir almenning árið 2018 hafa fleiri og fleiri reglur verið samþykktar sem takmarka notkun þeirra.
Meðal annars hafa banaslys og kvartanir frá gangandi vegfarendum sett strik í reikninginn og telja margir að þessi ferðamáti sé hættulegur.
Anne Hidalgo borgarstjóri sagðist ætla að fylgja niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar eftir að hún greiddi sjálf atkvæði í gær.
Bannið mun ekki ná til rafskútna í einkaeigu.