Blaðamaðurinn áfrýjar varðhaldinu í Moskvu

Evan Gershkovich, blaðamaður The Wall Street Journal, var handtekinn fyrir …
Evan Gershkovich, blaðamaður The Wall Street Journal, var handtekinn fyrir njósnir í Rússlandi. AFP

Evan Gershkovich, bandaríski blaðamaðurinn sem handtekinn var í Moskvu sakaður um njósnir, hefur áfrýjað gæsluvarðhaldi sem hann var dæmdur til af rússneskum dómstól.

Gershkovich er fyrsti erlendi blaðamaðurinn sem handtekinn hefur verið frá falli Sovétríkjanna. Hann starfar hjá Wall Street Journal og var áður fréttaritari AFP í Moskvu. Hann er sagður leiksoppur í valdabaráttu stórveldanna í tenglum við stríðið í Úkraínu.

Áfrýjun hans verður tekin fyrir síðar í vikunni. Menn hliðhollir stjórnvöldum í Kreml sögðust hafa heimsótt blaðamanninn og sagt hann ekki hafa kvartað undan aðstæðum í fangelsinu.

Menn úr sendiráði Bandaríkjanna í Moskvu hafa hins vegar ekki fengið heimild til að heimsækja Gershkovich.

Sagt er að Joe Biden Bandaríkjaforseti sé meðvitaður um stöðuna og að Bandaríkjamenn muni beita sér af fullum krafti til að fá Gershkovich lausan.

Wall Street Journal hefur krafist þess að Gershkovich verði tafarlaust látinn laus. 

AFP segir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert