Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, telur ekki einsýnt að hægri stjórn verði mynduð í Finnlandi þó íhaldsmenn og Finnaflokkurinn hafi fengið um 41% atkvæða í nýafstöðnum þingkosningum.
Finna flokkurinn hefur sett innflytjendamál á oddinn og fékk góða kosningu eða 20.1% Hins vegar þykja íhaldsmenn til þessa ekki hafa opnað dyrnar á harðari afstöðu í garð innflytjenda. Það setji báða þessa flokka í snúna stöðu gagnvart sínum kjósendum
Sósíaldemókrataflokkur Sönnu Marin forsætisráðherra bætti við sig fylgi og fékk 19,9% kosningu en sú fylgisaukning mun ekki duga til því hefð er fyrir því í finnskum stjórnmálum að stjórnarmyndunarumboðið fer til stærsta flokksins. Íhaldsmenn, eða Bandalagið eins og þeir eru nefndir, fékk 20,8% kosningu. Hver þessara flokka fékk um 100 þingsæti í kosningunum.
„Finnaflokkurinn er aðeins frábrugðinn Sönnum Finnum þar sem sá flokkur klofnaði fyrir nokkrum árum. Hann er mun harðari popúlistaflokkur en Sannfinnarnir voru á sínum tíma og hafa haldið uppi mun afdráttarlausari rasískri orðræðu," segir Eiríkur.
Hann segir að ekki hafi þótt tiltökumál að vinna með Sönnum Finnum á sínum tímar þar sem sá flokkur var settur á laggirnar í kringum Evrukrísuna og var í raun viðbragð við fjárútlátum til handa fátækari ríkjum eftir bankahrun.
„Bandalagið (íhaldsmenn) á svolítið erfitt val fyrir höndum. Efnahagslega á hann samleið með Finnaflokknum en mun sæta gagnrýni fyrir að taka harðan popúlistaflokk í stjórnina. Það er því ekki útilokað að þeir muni teygja sig til vinstri og reyna að ná til sósíaldemókratískra flokka og mynda breiða sambandsstjórn," segir Eiríkur.
Eiríkur segir að búast megi við því að Bandalagið muni hefja viðræður við Finnaflokkinn. Báðir flokkar kunni þó að þurfa að íhuga stöðu sína. Staða Finnaflokksins utan ríkisstjórnar sem gagnrýnandi flokkur kunni að vera sterkari en innan hennar. „Báðir þessir flokkar kunna því að hafa gagnkvæman hag af því að setjast ekki saman í ríkisstjórn. Það gæti þó verið hyggilegra fyrir Bandalagið sýna fram á að það hafi reynt að ná saman með Finna flokknum áður en það teygir sig yfir hrygginn til vinstri,“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir að einhugur ríki um inngöngu í NATO í finnskum stjórnmálum. Það mál sé afgreitt. Hins vegar er sambúðin við Rússa til austurs helsta mál þarlendra stjórnmála.
„Stóra málið í finnskum stjórnmálum er sambúðin við risann í austri. Öll stjórnmál hverfast um það hvernig takast á við vandamálið á austurlandamærunum. Það kann að hafa áhrif á stjórnarmyndun því að menn vilja kannski hafa sem breiðasta stjórn til að takast á við ógnina úr austri á þessum tímapunkti,“ segir Eiríkur.
Hann segir að stríðið í Úkraínu sé mun stærra í finnskum stjórnmálum en hér á landi t.am. „Flestir stjórnmálamenn eru á einu máli og Finnar vilja sýna sterka hlið sameinaða gegn Rússum,“ segir Eiríkur.