Bláa staðfestingarhakið hefur verið fjarlægt af Twitter-reikningi New York Times. Bandaríski fjölmiðillinn hefur gefið það út að hann muni ekki borga fyrir staðfestingarhakið, sem eingöngu er fáanlegt gegn gjaldi frá 1. apríl.
Það að New York Times sagðist ekki myndu greiða fyrir staðfestingarhakið varð það til þess að Elon Musk birti neikvæð skilaboð á Twitter um miðilinn. Musk sagði málflutning miðilsins ekki spennandi og lýkti efninu á Twitter-síðu hans við niðurgang.
The real tragedy of @NYTimes is that their propaganda isn’t even interesting
— Elon Musk (@elonmusk) April 2, 2023
Engar opinberar athugasemdir hafa borist frá Twitter og New York Times hefur ekki svarað ummælum Musk.
Fyrirtæki og stofnanir þurfa nú að greiða eitt þúsund bandaríkjadali á mánuði fyrir gyllt stðafestingarhak en einstaklingar þurfa að greiða átta dollara á mánuði fyrir bláa staðfestingarhakið.
Fjölmiðlarnir CNN, Los Angeles Times og Washington Post sögðust einnig ekki ætla að greiða fyrir staðfestingarhakið en þeir eru þó allir með gyllt staðfestingarhak sem og undirreikningar New York Times: New York Times Arts og New York Times Travel.
Bandaríski körfuboltakappinn LeBron James hefur sagst ekki myndu greiða fyrir staðfestingarhakið sem og landi hans, rapparinn og leikarinn, Ice-T. Reikningar þeirra beggja eru enn auðkenndir með bláu staðfestingarhaki.