„Oturinn“ dæmdur þriðja sinni

Dómstóllinn í Glasgow þar sem Ferguson hlaut fimm ára og …
Dómstóllinn í Glasgow þar sem Ferguson hlaut fimm ára og átta mánaða fangelsisdóm, sinn þriðja. Ljósmynd/Google Maps

Dómstóll í skosku borginni Glasgow hefur dæmt Ryan Ferguson, öðru nafni „Títan-Otur“, til tæplega sex ára fangelsisvistar eftir að upp komst um stórfelld fíkniefnaviðskipti hans en Oturinn hafði þá haft fíkniefni á ýmsum felustöðum í skógum skosku Hálandanna og auk þess leiðbeint ýmsum samstarfsmönnum sínum um að fara með fíkniefni og fela á slíkum stöðum.

Mat lögregla verðmæti hinna földu efna síðar rúm 492.000 pund en sú upphæð jafngildir 83 milljónum íslenskra króna. Dulefni sitt, „Titanium Otter“, notaði Ferguson í dulkóðuðum símtölum við samstarfsmennina sem lögreglu tókst að hlera og komst þá upp um viðamikla starfsemina.

Dæmdur í „Super Asbo“

Dæmdi rétturinn Ferguson til að gangast undir svokallað Super Asbo-úrræði sem er eins konar gælunafn á því sem formlega heitir Serious Crime Prevention Order, SCPO, og er ætlað að halda afbrotamönnum, sem sérstaklega hætt er við að brjóti af sér á ný, á mottunni eftir að þeir ljúka afplánun.

Í tilfelli Otursins er sérstök þörf talin á þessu þar sem hann hefur tvívegis áður hlotið dóma fyrir fíkniefnaviðskipti og peningaþvætti en hann hefur einkum höndlað með kókaín, kannabisefni og staðdeyfilyfið benzocaine og er talinn hafa tekið til við fyrri iðju aðeins nokkrum vikum eftir að hann lauk síðustu afplánun sinni í júní 2019.

Gripinn á flugvellinum

Komst lögregla á snoðir um mikla flutninga á reiðufé og fíkniefnum til og frá felustöðunum í skóglendinu gegnum símahleranir sínar og tókst að finna mjög hreint kókaín falið undir mosabreiðu í skóginum, götuverðmæti um 143.000 pund, eða rúmlega 24 milljónir króna.

Leiddi rannsóknin að lokum til þess að Oturinn var gripinn á flugvellinum í Glasgow við heimkomu úr fríi í Taílandi í júní í fyrra og hefur nú hlotið dóm sinn – í þriðja sinn.

„Um var að ræða samhæfða aðgerð til að flytja umtalsvert magn ólöglegra og skaðlegra fíkniefna til Norður-Skotlands,“ segir Laura Buchan saksóknari við málalok.

BBC

Metro

UK Daily

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert