Rússar efla herinn við landamæri Finnlands

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP/Gavríl Grígorov

Rússar ætla sér að efla herinn í Rússlandi við landamæri Finnlands vegna inngöngu Finna í Atlantshafsbandalagið (NATO).

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, greindi frá því í dag að Finnland yrði 31. ríki bandalagsins á morgun, þriðjudag.

„Við ætlum að styrkja herdeildir okkar í vestri og norðvestri,“ segir varautanríkisráðherra Rússlands, Alexander Grúskó, við rússneska ríkismiðilinn RIA Novosti.

„Ef til þess kemur að önnur NATO-ríki flytji hermenn og aðföng á landsvæði Finnlands, munum við grípa til frekari ráðstafana til þess að tryggja hernaðaröryggi Rússlands,“ segir Grúskó.

Landamæri Rússlands og Finnlands eru 1.300 kílómetrar að lengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert