Talsmenn rússneska hersins hafa ekkert tjáð sig um meinta sigra í borginni Bakhmút í austurhluta Úkraínu eftir að liðsmenn Wagner-málaliðanna kváðust hafa náð ráðhúsi borgarinnar á sitt vald.
Baráttan um Bakhmút hefur verið lengsta hernaðaraðgerð Rússa frá því innrásin í Úkraínu hófst.
Jevgení Prigosjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, sagði á vefnum Telegram í dag að lagalega séð væri Bakhmút undir þeirra stjórn. „Óvinurinn heldur sig í vesturhlutanum,“ sagði Prigosjín.
Í myndskeiði sem fylgir færslunni sést Prigosjín halda á rússneskum fána, sem hann segir að liðsmennWagner-sveitanna muni reisa á ráðhúsi borgarinnar.
Talsmenn rússneska varnarmálaráðuneytisins sögðu þó ekkert um málið á daglegum blaðamannafundi sínum í dag.
Aftur á móti segja talsmenn úkraínska hersins að þeim hafi tekist að stöðva árásir Rússa og að borgin sé enn í höndum Úkraínumanna.
Í marga mánuði hefur Prigosjín, sem er bandamaður Pútíns Rússlandsforseta, átt í valdabaráttu við rússneska varnarmálaráðuneytið þar sem hann hefur lýst yfir góðum árangri á vígvellinum áður en rússneskir hermenn mæta á svæðið. Þá hefur hann sakað herinn um að neita að deila skotfærum með málaliðahópnum.