Rússar segja að „hryðjuverkaárásin“ sem varð Vladlen Tatarskí að bana í Péturborg í Rússlandi í gær hafi verið skipulögð af yfirvöldum í Úkraínu með aðstoð stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní.
„Hryðjuverkaárásin var skipulögð af leyniþjónustu Úkraínu með aðstoð svokallaðrar Stofnunar gegn spillingu,“ segir í tilkynningu frá rússnesku nefndinni gegn hryðjuverkum, og er átt við samtök Navalnís.
Talsmaður samtaka Navalnís neitar ásökunum.
Daraja Trepova hefur verið handtekin grunuð um að hafa komið styttu fyllta af sprengjuefni til Tatarskís á kaffihúsi. Sprengjan sprakk með þeim afleiðingum að Tatarskí lést og fjöldi annarra særðist.
Tatarskí hélt úti einu helsta bloggi Rússlands tileinkuðu stríðsátökum og var mikill stuðningsmaður innrásar Rússlands í Úkraínu.
Úkraínumenn segja að árásin hafi verið afleiðing innanríkisdeilna í Rússlandi.