Rússnesk stjórnvöld segja aðild Finna að Atlantshafsbandalaginu vera „árás á þjóðaröryggi“ þeirra og að gripið verði til gagnráðstafana.
„Stjórnvöld í Kreml telja þetta vera nýjustu stigmögnun ástandsins,“ sagði Dimitrí Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, við blaðamenn.
Þá sagði hann fjölgun aðildarríkja NATO vera árás á þjóðaröryggi og þjóðarhagsmuni Rússa.
„Þetta neyðir okkur til að grípa til gagnráðstafana með taktískum hætti,“ sagði Peskov en gaf ekki nánari upplýsingar.
Í dag verður fána Finna flaggað við höfuðstöðvar NATO í Brussel og þar með verður ríkið 31. aðildarríki bandalagsins.