Finnland gengur formlega í Atlantshafsbandalagið, NATO, í dag, en nýverið samþykktu öll bandalagsríkin 30 umsókn Finnlands að bandalaginu.
Hægt verður að fylgjast með athöfninni í beinni útsendingu hér.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í liðinni viku að hann hlakkaði til að draga fána Finnlands að húni hjá höfuðstöðvum NATO.
„Saman erum við sterkari og öruggari,“ sagði Stoltenberg á Twitter þegar ljóst var að engar hindranir væru lengur í vegi fyrir umsókn Finnlands.
Stoltenberg sagði í annarri yfirlýsingu að herafli Finnlands væri mjög öflugur, þar sem Finnar hefðu vel þjálfaða hermenn, mikla hernaðargetu og sterkar lýðræðislegar stofnanir. Finnland myndi því verða bandalaginu mikill styrkur.