Finnland gengið inn í NATO

Fyrir utan finnska utanríkisráðuneytið í dag.
Fyrir utan finnska utanríkisráðuneytið í dag. AFP

Finnland lauk rétt í þessu formlegri inngöngu sinni í Atlantshafsbandalagið og er þar með orðið 31. aðildarríki bandalagsins.

Um leið tvöfaldast samanlögð lengd landamæra NATO-ríkja við andstæðinginn Rússland.

Talið er að Finn­ar muni styrkja banda­lagið veru­lega, sér í lagi hvað varðar varn­ir þess gegn mögu­legri árás Rússa á banda­lags­ríki í Mið- og Aust­ur-Evr­ópu.

Næðu þremur höfuðborgum á þremur sólarhringum

Eystra­salts­rík­in þrjú, Eist­land, Lett­land og Lit­há­en, eru þar of­ar­lega á blaði, en hernaðarsér­fræðing­ar hafa um ára­bil varað við því að Rúss­ar gætu mögu­lega reynt að ná þeim aft­ur und­ir sig, að hluta eða í heild, þrátt fyr­ir að þau hafi gengið til liðs við Atlants­hafs­banda­lagið árið 2004.

Banda­ríska rann­sókn­ar­hug­veit­an RAND Corporati­on komst að þeirri niður­stöðu árið 2016, að Rúss­ar næðu að her­taka all­ar höfuðborg­ir ríkj­anna á inn­an við þrem­ur sól­ar­hring­um, gerðu þeir árás.

Atlants­hafs­banda­lagið hefði þá nokkra kosti og alla frem­ur óaðlaðandi þar sem banda­lags­rík­in yrðu að velja á milli þess að sætta sig við orðinn hlut, eða að reyna að frelsa rík­in með mikl­um til­kostnaði og hættu á mun meiri átök­um.

Sviðsmyndin breytist

Með inn­göngu Finn­lands í NATO, auk vænt­an­legr­ar inn­göngu Svíþjóðar á næstunni, breyt­ist sú sviðsmynd nokkuð, þar sem Eystra­saltið verður um­kringt ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins.

Finn­land sér­stak­lega gæti aðstoðað við að verja Eist­land, og við að senda liðsauka yfir hafið til þess að koma í veg fyr­ir að „leift­ur­sókn“ Rússa gæti skilað ár­angri, en Hels­inki, höfuðborg Finn­lands, er ein­ung­is um 70 kíló­metra frá Tall­inn, höfuðborg Eist­lands.

Inn­ganga Finn­lands mun ekki bara styrkja varn­ir Eystra­salts­ríkj­anna, held­ur mun hún einnig styrkja varn­ir banda­lags­ins í hánorðri, þar sem Finn­ar geta þá aðstoðað Norðmenn við að verj­ast sókn Rússa inn á norður­slóðir. Þar hafa hernaðarsér­fræðing­ar einnig séð fyr­ir sér að Rúss­ar gætu reynt inn­rás í Norður-Nor­eg eða jafn­vel á Sval­b­arða til að styrkja stöðu sína í átök­um við Atlants­hafs­banda­lagið.

Öll nema Svíþjóð

Nú eru öll nor­rænu rík­in kom­in inn í NATO nema Svíþjóð, sem sótti um inngöngu á sama tíma og Finn­land. Deil­ur Svía við Tyrki og Ung­verja hafa hins veg­ar leitt til tafa á um­sókn­ar­ferli þeirra.

Þegar Recep Tayyip Er­dog­an, for­seti Tyrk­lands, tjáði Sauli Ni­inistö Finn­lands­for­seta ákvörðun sína um að biðja tyrk­neska þingið að staðfesta um­sókn Finna, þakkaði Ni­inistö kær­lega fyr­ir, en bætti við að um­sókn Finn­lands væri ekki full­komnuð fyrr en Svíþjóð fengi líka inngöngu í bandalagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert