Finnland lauk rétt í þessu formlegri inngöngu sinni í Atlantshafsbandalagið og er þar með orðið 31. aðildarríki bandalagsins.
Um leið tvöfaldast samanlögð lengd landamæra NATO-ríkja við andstæðinginn Rússland.
Talið er að Finnar muni styrkja bandalagið verulega, sér í lagi hvað varðar varnir þess gegn mögulegri árás Rússa á bandalagsríki í Mið- og Austur-Evrópu.
Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, eru þar ofarlega á blaði, en hernaðarsérfræðingar hafa um árabil varað við því að Rússar gætu mögulega reynt að ná þeim aftur undir sig, að hluta eða í heild, þrátt fyrir að þau hafi gengið til liðs við Atlantshafsbandalagið árið 2004.
Bandaríska rannsóknarhugveitan RAND Corporation komst að þeirri niðurstöðu árið 2016, að Rússar næðu að hertaka allar höfuðborgir ríkjanna á innan við þremur sólarhringum, gerðu þeir árás.
Atlantshafsbandalagið hefði þá nokkra kosti og alla fremur óaðlaðandi þar sem bandalagsríkin yrðu að velja á milli þess að sætta sig við orðinn hlut, eða að reyna að frelsa ríkin með miklum tilkostnaði og hættu á mun meiri átökum.
Með inngöngu Finnlands í NATO, auk væntanlegrar inngöngu Svíþjóðar á næstunni, breytist sú sviðsmynd nokkuð, þar sem Eystrasaltið verður umkringt ríkjum Atlantshafsbandalagsins.
Finnland sérstaklega gæti aðstoðað við að verja Eistland, og við að senda liðsauka yfir hafið til þess að koma í veg fyrir að „leiftursókn“ Rússa gæti skilað árangri, en Helsinki, höfuðborg Finnlands, er einungis um 70 kílómetra frá Tallinn, höfuðborg Eistlands.
Innganga Finnlands mun ekki bara styrkja varnir Eystrasaltsríkjanna, heldur mun hún einnig styrkja varnir bandalagsins í hánorðri, þar sem Finnar geta þá aðstoðað Norðmenn við að verjast sókn Rússa inn á norðurslóðir. Þar hafa hernaðarsérfræðingar einnig séð fyrir sér að Rússar gætu reynt innrás í Norður-Noreg eða jafnvel á Svalbarða til að styrkja stöðu sína í átökum við Atlantshafsbandalagið.
Nú eru öll norrænu ríkin komin inn í NATO nema Svíþjóð, sem sótti um inngöngu á sama tíma og Finnland. Deilur Svía við Tyrki og Ungverja hafa hins vegar leitt til tafa á umsóknarferli þeirra.
Þegar Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tjáði Sauli Niinistö Finnlandsforseta ákvörðun sína um að biðja tyrkneska þingið að staðfesta umsókn Finna, þakkaði Niinistö kærlega fyrir, en bætti við að umsókn Finnlands væri ekki fullkomnuð fyrr en Svíþjóð fengi líka inngöngu í bandalagið.