Marin gæti farið í forsetaframboð

Þrenning finnsku þingkosninganna, Sanna Marin, Petteri Orpo og Riikka Purra, …
Þrenning finnsku þingkosninganna, Sanna Marin, Petteri Orpo og Riikka Purra, leiðtogar jafnaðarmanna, íhaldsmanna og hægriöfgamanna. AFP/Heikki Saukkomaa

„Þessar kosningar voru mjög athyglisverðar að því leytinu hve mjótt er á munum milli þriggja efstu flokkanna, þeir lenda allir á tæplega eins prósentustigs bili,“ segir Anne Maria Holli, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Helsinki, í samtali við mbl.is um nýafstaðnar þingkosningar í Finnlandi þar sem íhaldsflokkur Petteri Orpo, Kansallinen Kokoomus, hlaut mest fylgi þótt mjótt væri á munum, hægriflokkurinn Sannir Finnar og Jafnaðarmannaflokkurinn, fylgdu á hæla honum.

„Þetta er reyndar mjög svipuð staða og var eftir síðustu kosningar þegar þrír efstu flokkar lágu allir á 0,7 prósentustiga bili,“ rifjar Holli upp, „þá fékk Jafnaðarmannaflokkurinn mesta fylgið en Sannir Finnar og Samsteypuflokkurinn [Kokoomus] fylgdu í kjölfarið. Þetta er býsna athyglisverð þróun í ljósi sögunnar, að þessir þrír flokkar raði sér á toppinn tvennar kosningar í röð og sýnir að landslagið í finnskum stjórnmálum er að breytast,“ heldur prófessorinn áfram.

Fylgið hrunið af Miðflokknum

Áður segir hún Miðflokkinn, Keskusta, jafnan hafa verið einn stóru flokkanna þriggja en fylgið hafi bókstaflega hrunið af honum og nú sé flokkurinn aðeins með um helming þeirra þingsæta sem hann hafði árið 2015. Þá hlaut flokkurinn 49 sæti og bætti við sig 14 frá kosningunum 2011 en eftir það hallaði verulega undan fæti og flokkurinn sat eftir með 31 sæti eftir kosningarnar 2019 en 23 sæti nú.

Prófessor Anne Maria Holli kveður margt koma til greina sem …
Prófessor Anne Maria Holli kveður margt koma til greina sem útkoma þeirra viðræðna sem nú fara í hönd, sambúð sumra flokka í ríkisstjórn yrði þó býsna stormasöm. Ljósmynd/Ari Aalto/Háskólinn í Helsinki

„Það verður fróðlegt að fylgjast með gengi Miðflokksins í framtíðinni,“ segir Holli, en flokkurinn hefur átt sæti í tveimur síðustu ríkisstjórnum, það er þeirri sem nú fer frá og stjórninni þar á undan.

Hún segir athyglisverðar stjórnarmyndunarviðræður nú fram undan og þar sé sannarleg ekkert gefið. „Samkvæmt okkar stjórnarskrá er það leiðtogi stærsta flokksins sem fær umboð til stjórnarmyndunar að loknum kosningum svo nú er stóra spurningin hvað gerist. Flokkurinn Sannir Finnar hefur breyst töluvert síðan hann átti aðild að ríkisstjórn árið 2015. Síðan hefur stefna flokksins færst mun lengra út á hægri vænginn og hann haldið uppi mun harðara andófi gegn innflytjendum, háværar raddir innan flokksins hafa sett fram mjög róttæk viðhorf gagnvart þeim auk þess sem flokkurinn er andsnúinn aðild að Evrópusambandinu,“ segir Holli.

Blá-svört stjórn með hægriöfgamönnum

Engu að síður séu margir framámenn innan Samsteypuflokks Petteri Orpos fylgjandi því að fara í stjórnarsamstarf með Sönnum Finnum frekar en Jafnaðarmannaflokki Sönnu Marin.

„Líkast til yrði þó við ramman reip að draga fyrir þessa flokka að ganga í eina sæng og þurfa að ná samkomulagi um alla þá ásteytingarsteina sem biðu þeirrar hægristjórnar sem þá yrði til, stjórnar sem ég myndi leyfa mér að kalla blá-svarta,“ heldur Holli áfram og vísar til öfgakenndrar hægristefnu Sannra Finna sem þó eiga meira upp á pallborðið hjá kjósendum nú en áður fyrr, rétt eins og slíkum flokkum hefur vaxið fiskur um hrygg um alla Evrópu.

Riikka Purra leiðir hina umdeildu Sönnu Finna sem hafa sótt …
Riikka Purra leiðir hina umdeildu Sönnu Finna sem hafa sótt í sig veðrið síðan 2011. Í kosningunum 1999, 2003 og 2007 fékk flokkurinn einn, þrjá og fimm þingmenn. Árið 2011 urðu þeir 39 og í kosningunum á sunnudaginn 46. En Sannir Finnar geta ekki setið í ríkisstjórn með hverjum sem er, að minnsta kosti ekki vandræðalaust. AFP/Jonathan Nackstrand

Þá megi ekki gleyma minni flokkunum í myndinni. „Stefnu Kristilegra demókrata mætti til dæmis vel fella að hvorri tveggja, stefnu Sannra Finna og Samsteypuflokksins, en Sænski þjóðarflokkurinn yrði erfiðari til samstarfs þar sem hann berst fyrir réttindum sænska minnihlutans í Finnlandi og því að sænska verði áfram opinbert tungumál í landinu, en það hugnast Sönnum Finnum ekkert sérstaklega,“ útskýrir prófessorinn.

Samstarf Orpos og Marin ylti á sátt um efnahagsmál

Þá gengi samstarf Græningja og Sannra Finna seint upp að mati hennar, „þeir flokkar hafa verið á öndverðum meiði um flest gildi alla tíð svo staðan er flókin og ekki síður vegna þess að Miðflokkurinn ætlar ekki að sitja í ríkisstjórn áfram, hann lýsir því yfir að hann vilji vera í stjórnarandstöðu á komandi tímabili“.

Er algjörlega útséð með að Jafnaðarmannaflokkurinn og Samsteypuflokkurinn myndi stjórn?

„Slík stjórn gæti orðið til og þá væri til dæmis mjög auðvelt fyrir Græningja eða Sænska þjóðarflokkinn að vera þriðji flokkur þeirrar stjórnar. Vandamálið þar er að Jafnaðarmannaflokkurinn og Samsteypuflokkurinn þyrftu þá að komast að niðurstöðu um efnahagsmál og verða á eitt sáttir um hvar eigi að ráðast í þennan mikla sparnað og niðurskurð ríkisútgjalda sem Orpo boðar. Jafnaðarmannaflokkurinn vill setja aukið fjármagn í menntakerfið og ekki skera niður bætur í velferðarkerfinu sem er einmitt eitt helsta stefnumál Orpos,“ segir Holli.

Petteri Orpo fagnar naumum sigri á sunnudaginn. Stjórnmálaskýrandi finnska ríkisútvarpsins …
Petteri Orpo fagnar naumum sigri á sunnudaginn. Stjórnmálaskýrandi finnska ríkisútvarpsins segir að mörgum þyki Orpo rólegur og leiðinlegur. Það séu hins vegar góðir kostir í finnskri pólitík. AFP/Alessandro Rampazzo

„En nú er bara að sjá hvað gerist næstu tvo mánuðina, Orpo sendir spurningalista sinn til hinna flokkanna í næstu viku og ég reikna með að þá muni þeir flokkar sem vilja í ríkisstjórn aðlaga sjónarmið sín stefnu Orpos að einhverju leyti og um leið fjarlægjast það sem þeir sögðust standa fyrir í aðdraganda kosninganna.“

„Rokkstjarnan“ gæti farið í forsetaframboð

Undir lokin er ekki annað hægt en að forvitnast um hvað prófessorinn telji að nú bíði forsætisráðherrans Sönnu Marin, „rokkstjörnunnar“ í finnskum stjórnmálum eins og hún hefur verið kölluð, þegar öllu hæglátari stjórnmálamaður, „tengdamömmudraumurinn“ Petteri Orpo, tekur sér stöðu við stjórnvölinn.

„Það veltur allt á útkomu stjórnarmyndunarviðræðnanna, færi Jafnaðarmannaflokkurinn í ríkisstjórn er mjög sterk hefð fyrir því að fjármálaráðuneytið falli næststærsta stjórnarflokknum í skaut en það er ekki ráðuneyti sem hentar Marin vel. Yrði hennar flokkur hins vegar stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu biði sæti þingforseta hennar. Svo hefur töluvert verið í umræðunni að ýmsar stofnanir Evrópusambandsins horfi löngunaraugum til hennar og fyrir því hefur verið ákveðin hefði í finnskum stjórnmálum að fráfarandi forsætisráðherrar leiti sér frama erlendis um stundarsakir,“ bendir Holli á og viðrar um leið einn möguleika til.

Sanna Marin stendur á krossgötum eftir að hafa orðið nánast …
Sanna Marin stendur á krossgötum eftir að hafa orðið nánast þjóðarhetja í heimsfaraldrinum. Möguleikar hennar eru þó langt í frá fáir að mati Holli, einn þeirra er til dæmis bara að taka sér smá frí. AFP/Jonathan Nackstrand

„Hér eru náttúrulega forsetakosningar á næsta ári og það er alveg ljóst að Marin yrði vinsæll frambjóðandi þar, hún leiddi ríkisstjórn sem starfaði á tímum heimsfaraldursins og var auk þess þjóðarleiðtogi hér þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og kom að öllu ferlinu sem leiddi til inngöngu okkar í Atlantshafsbandalagið [sem einmitt á sér stað í dag]. En svo er líka alveg hægt að ímynda sér að hún vilji taka sér smá frí, hún á fimm ára gamalt barn, við skulum ekki gleyma því. Þetta fer í raun allt saman mjög mikið eftir útkomu stjórnarmyndunarviðræðnanna, segir Anne Maria Holli, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Helsinki, að lokum um stöðu mála hjá Finnum í kjölfar kosninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert