Marlene Schiappa, félagsmálaráðherra Frakklands, er sökuð um að hafa misnotað fjármuni sem voru í styrktarsjóði sem hefur það hlutverk að berjast gegn öfgastefnu. Schiappa var gagnrýnd fyrr í vikunni fyrir að birtast á forsíðu tímaritsins Playboy.
Sjóðurinn sem um ræðir var stofnaður af frumkvæði Schiappa er hún starfaði í innanríkisráðuneytinu og hefur að geyma um 2,5 milljónir evra, eða um 370 milljónir íslenskra króna.
Styrktarsjóðurinn nefnist Marianne-sjóðurinn og var stofnaður eftir að sögukennari Samuel Paty var afhöfðaður árið 2020 af átján ára pilti. Paty hafði tíu dögum áður rætt við framhaldsskólanemendur sína og sýnt þeim skopmyndir af Múhameð spámanni.
Blaðamenn France 2 efast hins vegar um vinnu góðgerðasamtaka sem hafa fengið mikla fjármuni úr sjóði Schiappa.
Innanríkisráðuneytið endurskoðar nú styrkveitinguna og þá staðfestu saksóknarar í París við AFP-fréttaveituna að verið væri að rannsaka kvörtun sem barst frá nefnd ríkisstjórnarinnar gegn öfgastefnu.
Fjölskyldumeðlimir Paty sögðust í gær vera afar sorgmæddir yfir fréttunum. „Nafn Samuel Paty ætti aldrei að vera notað sem verkfæri í slíkum áformum.“
Er sjóðurinn var stofnaður sagði Schiappa að hann væri ætlaður „fólki og stofnunum sem efla gildi lýðveldisins og vinna gegn aðskilnaðarsinnum, sérstaklega á samfélagsmiðlum“.
Ekki er talið að flokkur ráðherrans hafi brotið nein lög um hvernig fjármununum var útdeilt.
Góðgerðarsamtökin sem um ræðir nefnast USEPPM. Talið er að samtökin hafi notað fjármuni til gerðar myndskeiða og færslna á samfélagsmiðlum sem að færri en 50 manns sáu. Fjármunirnir fóru aðallega í að borga tveimur leikstjórum.
Cyril Fergon, lögmaður USEPPM, sagði AFP-fréttaveitunni að slíkar greiðslur færu gegn reglum samtakanna.
Annar leikstjóranna, Mohamed Sifaoui, tísti að hann færi í mál við hvern sem reyndi að sverta orðspor hans.