Ellen Geirsdóttir Håkansson
Dómstóll níunda umdæmis í Bandaríkjunum hefur dæmt Trump í vil í máli sem klámmyndaleikkonan Stormy Daniels höfðaði gegn honum. Dómstóllinn hefur skyldað Daniels til þess að greiða um 620 þúsund dollara eða 86,7 milljónir króna í heildina til lögmanna Trump.
Í umfjöllun CNN kemur fram að Daniels hafi höfðað meiðyrðamál gegn Trump árið 2018 vegna orða sem hann lét falla þegar hún greindi frá því að hafa verið hótað að hún skyldi þegja um meint ástarsamband sitt við Trump. Forsetinn fyrrverandi kallaði frásögnina svikula.
Dómarinn í málinu sagði orðin vera vernduð undir málfrelsi og vísaði því frá. Daniels reyndi að áfrýja en tapaði að lokum.
Umrætt mál tengist ekki þeirri ákæru sem Trump hefur hangandi yfir höfði sér í New York. Hann mætti í réttarsal á Manhattan í gær þar sem ákæruliðir máls saksóknarans Alvin Bragg voru birtir. Trump neitaði sök í öllum 34 ákæruliðum. Ákæruna má lesa með því að smella hér.
Ákæran tengist meintum mútugreiðslum sem þáverandi lögmaður Trump, Michael Cohen, á að hafa greitt Stormy Daniels og Playboy fyrirsætunni Karen McDougal fyrir þögn sína. Trump og Cohen hafi reynt að koma í veg fyrir að þær myndu segja frá meintum ástarsamböndum sínum við hann fyrir forsetakosningarnar árið 2016.
Greiðslurnar til kvennanna eiga svo að hafa verið faldar í reikningum og er Trump því sakaður um fölsun reikninga og viðskiptagagna vegna fyrrnefndra greiðslna.