Meiriháttar verkefni að fjarlægja lestina

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. AFP

Hollensk yfirvöld standa frammi fyrir gríðarstóru verkefni við að fjarlægja farþegalest sem fór út af sporinu skammt frá borginni Haag í gær. Einn lést í slysinu og 30 slösuðust. Meðal þess sem þarf að gera er að reisa stærðarinnar brú yfir síki svo menn geti athafnað sig á svæðinu.

Einn tveggja hæða vagn liggur á akri við síkið og þrír aðrir á eða við lestarsporin.

Fram kemur í fjölmiðlum að brúin muni vega á bilinu 100 til 200 tonn, en henni er ætlað að styðja við krana sem mun lyfta vögnunum.

This photograph taken in Voorschoten, on April 5, 2023, shows …
This photograph taken in Voorschoten, on April 5, 2023, shows the accident site of a derailed train. - A Dutch high-speed passenger train slammed into heavy construction equipment and derailed near The Hague early on April 4, killing at least one person and injuring 30, emergency services said. (Photo by Robin van Lonkhuijsen / ANP / AFP) / Netherlands OUT AFP

Martijn de Graaf, talsmaður lestarfyrirtækisins ProRail, segir í samtali við AFP að verkefnið sé gríðarlega stórt.

„Brúin verður að vera nægilega sterk til að styðja við kranann sem mun fjarlægja lestina. Vagnanir eru á engi skammt frá síki og þröngum vegi sem ekki er hægt að komast um.“

Talið er að það muni taka einn til tvo daga að fjarlægja lestina.

Slysið er eitt það alvarlegasta í Hollandi í áraraðir. Þrátt fyrir tíðar lestarsamgöngur í landinu þá heyra svona atburðir til undantekningar þar í landi.

Lögreglan hefur nú hafið rannsókn á því sem þarna gerðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert