Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, tilkynnti í morgun að hún ætli að segja af sér sem formaður Jafnaðarmannaflokksins eftir ósigur í þingkosningunum á sunnudag.
„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég muni ekki sækjast eftir að gegna áfram formennsku jafnaðarmanna á landsfundi í september,“ sagði Marin á blaðamannafundi í Helsinki í morgun.
Innan við eitt prósentustig skildi þrjá atkvæðamestu flokkana að en tölur eftir að 97,6 prósent atkvæða höfðu verið talin féllu þannig að Íhaldsflokkurinn hlaut 20,7 prósent, Sannir Finnar, flokkur Riikku Purra, 20,1 prósent og Jafnaðarmannaflokkur Sönnu Marin 19,9 prósent.
Marin er 37 ára gömul og sagði á blaðamannafundinum að hún ætli að halda áfram þingmennsku, en uppi hefur verið orðrómur um að henni hafi verið boðin staða hjá alþjóðlegri stofnun.
„Mér hefur ekki verið boðin alþjóðleg staða. Ég mun halda áfram starfi mínu sem þingmaður,“ sagði Marin.
Þá greindi hún frá því að hún myndi formlega leysa upp ríkisstjórnina í dag og játaði að fjögur ár í embætti forsætisráðherra hafi reynst henni erfið.
Marin sagði að hún myndi þó leiða stjórnarmyndunarviðræður Jafnaðarmannaflokksins við Íhaldsflokkinn.
Hún sagðist þó ekki búast við því að gegna ráðherraembætti í næstu ríkisstjórn.