Starfsfólk beðið um að vinna heima vegna uppsagna

Skrifstofustarfsfólki var sagt að vinna heiman frá sér.
Skrifstofustarfsfólki var sagt að vinna heiman frá sér. AFP/Joe Raedle

Skrifstofum McDonalds í Bandaríkjunum hefur verið lokað tímabundið á meðan skyndibitarisinn segir upp starfsfólki. Er hópuppsögnin sögð vera hluti af stærri skipulagsbreytingu innan fyrirtækisins. Wall Street Journal greinir frá en ekki kemur fram hversu margir hafa misst vinnuna eða munu gera það.

Hluti starfsmanna fékk veður af uppsögnunum á mánudaginn, þar á meðal varaforseti tryggingamála sem fékk að vita að staða hans yrði lögð niður eftir 20 ára starf hjá fyrirtækinu.

Í tölvupósti sem var sendur á starfsmenn fyrirtækisins í Bandaríkjunum voru þeir beðnir um að vinna að heiman frá mánudegi og fram á miðvikudag svo hægt væri að upplýsa um uppsagnirnar stafrænt. 

Þá voru starfsmenn beðnir um að aflýsa öllum fundum með birgjum og utanaðkomandi aðilum sem halda átti í höfuðstöðvum fyrirtækisins. 

Vildu tryggja trúnað

„Í vikunni sem hefst 3. apríl upplýsum við um lykilákvarðanir í tengslum við hlutverk og starfsmannamál í gegnum allt fyrirtækið,“ stóð í skilaboðum til starfsmanna.

„Við viljum tryggja þægindi og trúnað við fólkið okkar á þessum tímum,“ sagði jafnframt.

Chris Kempczinski, framkvæmdastjóri McDonalds, sagði í viðtali í janúar að von væri á uppsögnum. Hann gaf þó ekki upp hversu mörgum yrði sagt upp eða hvað fyrirtækið hugðist spara mikið með þessum aðgerðum.

„Sumar stöður verða færðar en aðrar lagðar niður,“ sagði Kempczinski.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert