Búið er að innsigla heimili fyrrverandi forsætisráðherra Skota, Nicolu Sturgeon og eiginmanns hennar, Peter Murrell. Murrell var handtekinn í morgun á heimili hjónanna í útjaðri Glasgow vegna rannsóknar skosku lögreglunnar á fjármálum Skoska þjóðarflokksins (SNP).
Stutt er síðan hjónin hættu störfum sínum innan flokksins en Murrell sagði upp sem framkvæmdastjóri flokksins í síðasta mánuði. Murrell sagði upp vegna deilna sem ágerðust um gagnsæi flokksins og fjölda meðlima í flokknum. Tók hann ábyrgð á því að hafa ýkt meðlimatölur flokksins. Hann sagði meðlimi vera um hundrað þúsund þegar þeir voru í raun um 72 þúsund. Sturgeon sagði af sér sem forsætisráðherra um miðjan febrúar.
Þessu greinir skoski miðillinn The Herald frá.
Murrell var leiddur út af heimili sínu í handjárnum í morgun en samkvæmt umfjöllun Telegraph mætti lögreglan á heimili hjónanna um tuttugu mínútum eftir að Sturgeon keyrði af svæðinu.
Gagnasöfnun og húsleit lögreglu stendur nú yfir á heimilinu vegna málsins. Þar að auki leitar lögregla í hinum ýmsu húsnæði flokksins, þar á meðal í Edinborg. Fjármagnið sem er til rannsóknar eru 600 þúsund pund eða um 105,3 milljónir króna sem eyrnamerkt voru fyrir kosningabaráttu flokksins.
Hér að ofan má sjá lögregluna ganga um höfuðstöðvar flokksins í Edinborg.
Arftaki Sturgeon í starfi, Humza Yousaf, segir mikilvægt fyrir flokkinn að vera eins gagnsær og mögulegt er á meðan á rannsókn stendur, hann muni vinna með lögreglu. Þá hafi hann aldrei sinnt neinu hlutverki innan flokksins sem hafi veitt honum aðgang að fjármálum þess.
Spurður hvort hann telji að yfirvofandi handtaka eiginmanns hennar hafi verið ástæðan að baki afsagnar Sturgeon hafnar hann því og segir arfleifð Sturgeon standa fyrir sínu.
Greint var frá því þann 12. febrúar að lögregla hefði haft samband við hátt setta aðila innan flokksins vegna rannsóknarinnar en þann 15. segir Sturgeon af sér.
Yousaf segist trúa röksemdafærslu Sturgeon fyrir afsögninni, að hún hafi í raun verið orðin of þreytt í starfi til þess að sinna því áfram. Þar nefnir hann til dæmis að kórónuveirufaraldurinn og allt umstang í kringum hann hafi verið mjög þreytandi verkefni.