Alls 119 handteknir í „Kökuskrímslisaðgerð“

Verkefnið sem kennt var við Kökuskrímslið á Sesamstræti var leitt …
Verkefnið sem kennt var við Kökuskrímslið á Sesamstræti var leitt af bandarísku alríkislögreglunni, FBI. Samsett mynd

Samtals hafa verið handteknir 119 manns í tengslum við aðgerð bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) kennda við Kökuskrímslið á Sesamstræti (e. Operation Cookie Monster).

Lögregla beindi spjótum sínum að Genesis markaðnum, vefsíðu þar sem tölvuþrjótar gátu keypt stolin auðkenni fólks og lykilorð þess.

Europol segir að glæpamenn hafi í gegnum síðuna getað keypt stafrænar upplýsingar um fólk, svo sem fingraför þeirra, vafrakökur og vistuð lykilorð og aðrar upplýsingar.

Auðkennisupplýsingar tveggja milljón manna höfðu verið seldar í gegnum vefsíðuna. Voru verðmiðarnir allt frá því sem nemur tæpum hundrað krónum íslenskum upp í tugi þúsunda króna.

Vefsíðan hýst í Rússlandi

Verkefnið var leitt af FBI og lögreglunni í Hollandi en lögregluyfirvöld í 17 öðrum löndum tóku þátt í því.

Bandaríska fjármálaráðuneytið sagði í yfirlýsingu að talið væri að vefsíða Genesis væri hýst í Rússlandi.

Vafrakökur (e. cookies) eru upplýsingar sem gera það auðveldara að opna vefsíður sem notandi hefur áður heimsótt. Kökuskrímslið er blá, loðin persóna úr bandarísku barnasjónvarpsþáttunum Sesamsstræti (e. Sesame Street).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert