Bandaríska dómsmálaráðuneytið rannsakar nú dauða unglings í Washington-borg sem var skotinn af lögreglu.
Dalaneo Martin var 17 ára gamall er hann sofnaði í stolnum bíl 18. mars. Bílinn var í gangi.
Búkmyndavélar lögreglumannanna sýna er lögreglan fór inn í bílinn að aftan til að handtaka Martin. Pilturinn keyrði þá hratt í burtu með lögreglumann í aftursætinu.
BBC greinir frá því að lögreglumaðurinn bað Martin að stöðva bifreiðina. Hann fylgdi ekki eftir fyrirmælunum og skaut þá lögreglumaðurinn Martin að aftan.
„Mannslát er alltaf sorglegt en það er sérstaklega hörmulegt þegar um barn er að ræða,“ sagði í yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins þar sem rannsókn á málinu var tilkynnt.
Þá sagði í yfirlýsingunni að myndskeiðin úr búkmyndavélunum hafi verið „sérstaklega sorglegt“ að sjá.
Myndskeið sem var birt í gær sýnir hvernig tveir lögreglumenn ræða hvernig þeir ætli að handtaka piltinn rétt fyrir klukkan níu að morgni laugardags.
Þá heyrist annar þeirra biðla til hins að festast ekki inni í bílnum. Þá sést er Martin keyrði í burtu með lögreglumanninn í aftursætinu.
„Stoppaðu maður, leyfðu mér bara að komast út! Leyfðu mér að fara!“ heyrist í lögreglumanninum kalla.
Þá biður hann Martin nokkrum sinnum að stöðva bílinn, „annars skýt ég“ segir hann áður en hann skýtur Martin.
Bifreiðin keyrði síðan inn í hús og sjúkralið reyndi endurlífgun á Martin.
Lögreglumennirnir greindu frá því að þeir hefðu gert byssu upptæka úr bifreiðinni.
Stéttarfélag lögreglumannsins sagðist standa með ákvörðun hans að skjóta Martin.
Terra Martin, móðir piltsins, sagði í gær að það ætti að reka lögreglumanninn og sækja hann til saka. „Sársaukinn er svo sár,“ sagði hún við blaðamenn.