Marin biðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt

Sanna Marin gekk á fund Sauli Niinistö forseta í dag …
Sanna Marin gekk á fund Sauli Niinistö forseta í dag og baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt. AFP/Markku Ulander

Sanna Marin, fráfarandi forsætisráðherra Finnlands, hefur gengið á fund Sauli Niinistö forseta og beðist lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Núverandi ríkisstjórn landsins situr þó áfram þar til ný stjórn hefur verið mynduð, en Petteri Orpo, leiðtogi Samsteypuflokksins, sigurflokks nýafstaðinna þingkosninga, hefur stjórnarmyndunarviðræður eftir páska. Þær gætu orðið snúnar eins og ýmsir fræðimenn hafa tjáð sig um síðustu daga.

Niinistö forseti tók við erindi Marin og þakkaði fráfarandi ríkisstjórn unnin störf á sérstaklega erfiðum tímum og vísaði þar til nýafstaðins heimsfaraldurs auk þess sem störf stjórnar Marin mörkuðust einnig af innrás Rússa í Úkraínu síðasta rúma árið.

Forsætisráðherrann fráfarandi tilkynnti enn fremur í gær að hún hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Jafnaðarmannaflokksins á næsta landsfundi hans.

YLE

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert