Reri alein yfir Kyrrahafið

Michelle Lee er fyrsta konan til þess að róa alein …
Michelle Lee er fyrsta konan til þess að róa alein yfir allt Kyrrahaf án nokkurrar hjálpar. HECTOR GUERRERO

Áströlsk kona reri 14 þúsund kílómetra alein yfir gervallt Kyrrahaf á 237 dögum. Hún er fyrsta konan til þess að gera slíkt.

Frá þessu greinir ástralski fréttamiðillinn ABC News.

Hún lagði af stað í ágúst frá borginni Ensenada í Mexíkó með ekkert annað en sjávarlíf Kyrrahafsins og gervihnattasíma að félagsskap.

Konan, sem heitir Michelle Lee, kom til hafnar við Douglas-höfn í Queensland í norðaustanverðri Ástralíu en hún hafði ekki stigið fæti á land í tæpa átta mánuði.

Við höfnina tóku vinir hennar og fjölskylda fagnandi á móti henni. Þar opnaði hún kampavínsflösku sem hún hafði haft í för með sér alla leiðina frá Ameríku.

„Þegar ég var þarna úti á víðavangi, var ég aldrei einmana“ segir hún í viðtali við ABC.

Hákarl hoppaði um borð

Á ferð sinni átti hún sét leið framhjá fjórum hvirfilbyljum og fimm fellibyljum.

Hún segir einnig að það eftirminnilegasta við ferðina hafi verið hennar óvæntu mót við hákarla, þar sem hún var elt af tveimur stórvöxnum hákörlum í tvær vikur.

Þá sagði hún að hákarlaungviði hafi hoppað um borð þegar hún sigldi fyrir ofan hákarlatorfu af um fimmtíu hákörlum. Hún segir það þó hafa verið „forréttindi“ að komast í snertingu við náttúru Kyrrahafs.

Sigldi reynslulaus yfir Atlantshaf

Þessi ferð er langt því frá að vera fyrsta afrek Lee. Hún reri um fimm þúsund kílómetra þvert yfir Atlantshafið árið 2019 á 68 dögum án nokkurrar reynslu við það að róa svo langt en hún starfar sem nuddari.

Móðir hennar, Margaret Lee, sagðist nánast hafa „dáið úr hræðslu“ á meðan dóttir hennar reri yfir hafið en væri „hughreyst og spennt og bara ánægð að hún væri komin heim“.

Lee hefur nú þegar ákveðið hvert næsta afrek hennar verður en hún ætlar sér að fara til Spánar í þrjár vikur þar sem hún leggur undir sig þúsund kílómetra fjallgöngu.

„Gerðu það sem þú elskar, elskaðu það sem þú gerir“ segir hún við ABC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert