Bob Lee, stofnandi Cash App, var stunginn til bana nærri miðborg San Francisco í Bandaríkjunum á þriðjudag.
BBC greinir frá því að lögreglan hafi fundið 43 ára mann með stungusár og hlúið að sárum hans. Hann lést síðar á sjúkrahúsi.
Faðir Bob Lee, Rick Lee, staðfesti að um son hans væri að ræða.
Stjórnvöld borgarinnar hafa verið gagnrýnd fyrir viðbrögð þeirra við fjölgun ofbeldisglæpa í borginni á síðustu árum.
Myndskeið úr eftirlitsmyndavél sýnir að Lee gekk niður autt húsasund að leita að aðstoð aðfaranótt þriðjudags.
Lee sést ganga að bifreið og lyfta upp skyrtunni sinni til að sýna ökumanninum stungusárið. Bifreiðin keyrði þá í burtu og Lee féll á jörðina.
Lögreglan fann Lee síðar meðvitundarlausan og með tvö stungusár.
„Besti vinur minn er látinn, sonur minn Bob Lee lést á götum San Francisco aðfaranótt þriðjudags,“ skrifaði faðir Lee á samfélagsmiðlum.
Lee bjó í Miami í Flórída en var á ráðstefnu í San Francisco og dvaldi hjá vinum.
Lee starfaði sem framleiðslustjóri hjá rafmyntarfyrirtækinu MobileCoin. Hann var einn af stofnendum smáforritsins Cash App sem meira en 30 milljón manns nota fyrir millifærslur. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 og er virði þess nú metið á um 40 milljarð dollara.