Eigi ekki skilið að fara í fangelsi

Viðtal Morgan við Daniels er fyrsta viðtalið við hana síðan …
Viðtal Morgan við Daniels er fyrsta viðtalið við hana síðan réttarhöldin yfir Trump hófust. AFP

Stormy Daniels telur að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, eigi ekki að vera dæmdur til fangelsisvistar vegna ákæra á hendur honum. 

„Mér finnst að hann eigi ekki að hljóta fangelsisvist fyrir glæpina sem hann hefur framið,“ sagði Daniels í viðtali við Piers Morgan. 

Trump lýsti yfir sak­leysi sínu af þeim ákær­um, sem Al­vin Bragg, sak­sókn­ari á Man­hatt­an, hef­ur lagt fram gegn Trump. Ákær­urn­ar eru 34 tals­ins, og sak­ar Bragg Trump um að hafa falsað reikn­inga og önn­ur viðskipta­gögn.

Trump gæti átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi verði hann sakfelldur. 

Lögmaður Trump borgaði Daniels 130 þúsund dollara fyrir forsetakosningarnar árið 2016 fyrir þögn hennar vegna meints ástarsambands þeirra. Trump greiddi síðan lögmanninum til baka er hann gegndi embætti forseta og skýrði greiðsluna sem lögfræðikostnað. 

„Ég er sú eina sem er að segja sannleikann

Viðtal Morgan við Daniels er fyrsta viðtalið við hana síðan réttarhöldin yfir Trump hófust. 

BBC greinir frá því að Daniels telur þó að ef Trump verður sakfelldur fyrir aðra glæpi sem hann hefur verið sakaður um skuli hann hljóta fangelsisvist, svo að aðrir haldi ekki að þeir komist upp með sömu glæpi og Trump. 

Í öðrum ríkjum er verið að rannsaka brot Trump, meðal annars fyrir að reyna að hafa áhrif á fram­vindu kosn­inga­bar­átt­unn­ar í Georgíu-ríki og hlut hans í árásinni á þinghúsið í Washington-borg. 

Spurð hvort hún ætli að bera vitni í réttarhöldunum svaraði Daniels játandi. „Ég er sú eina sem er að segja sannleikann,“ sagði hún og bætti við að hún hafi ekkert að fela. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert