Fordæma handtöku bandarísks blaðamanns

Chuck Schumer, ásamt Mitch McConnell, lýsir yfir fordæmingu á handtöku …
Chuck Schumer, ásamt Mitch McConnell, lýsir yfir fordæmingu á handtöku bandarísks blaðamanns í Rússlandi fyrir meintar njósnir. AFP

Leiðtogar í öldungadeild Bandaríkjaþings fordæma handtöku Rússa á bandaríska blaðamanninum Evan Gershkovich og krefjast þess að hann verði látinn laus.

Gershkovich var handtekinn af rússneskum yfirvöldum í seinustu viku en í dag var hann formlega ákærður af rússneskum yfirvöldum fyrir njósnir í þágu Bandaríkjanna.

Joe Biden Bandaríkjaforseti kallaði einnig eftir því að Gershkovich yrði látinn laus og lýsti handtökunni sem „fáránlegri“.

„Blaðamennska er ekki glæpur“

„Við fordæmum harkalega þetta óréttláta gæsluvarðhald á Evan Gershkovich, sem er bandarískur ríkisborgari og blaðamaður hjá The Wall Street Jornal,“ kemur fram í yfirlýsingu frá Chuck Schumer og Mitch McConnell, sem eru leiðtogar meirihlutans og minnihlutans í öldungadeildinni.

Þeir segja að rússnesk yfirvöld séu viljandi að reyna að „ógna, bæla niður og refsa“ sjálfstæðum blaðamönnum.

„Höfum eitt á hreinu. Blaðamennska er ekki glæpur,“ lýsa þeir yfir. „Við krefjumst þess ásakanirnar gegn honum, sem eru uppskáldaðar og á engu byggðar, verði felldar niður og að hann verði samstundis látinn laus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert