Gengi rússnesku rúblunnar hefur hríðfallið og hefur ekki verið lægra í meira en ár.
BBC greinir frá því að í morgun samsvöruðu 82 rúblur um einum bandarískum dollara, og þá samsvarar ein rúbla um einni og hálfri íslenskri krónu.
Mörg ríki hafa beitt Rússum viðskiptaþvingunum eftir að innrásin í Úkraínu hófst í febrúar í fyrra. Hagkerfi Rússa dróst saman um 2,1% árið 2022.
Sérfræðingar telja að gengi rúblunnar orsakist meðal annars af lágu olíuverði í mars og sölum á vestrænum fyrirtækjum í Rússlandi.
Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússa, sagði að lækkunin væri vegna breytingum á innflutningi og útflutningi. Þá sagði hann alþjóðahagkerfið einnig hafa áhrif.
Spurður hvort að almenningur ætti að hafa áhyggjur sagði Siluanov að rúblan myndi líklega styrkjast vegna áframhaldandi sölu á rússneskum orkugjöfum á alþjóðamarkaðinum.
Mörg ríki Evrópu hafa hætt kaupum á rússneskum orkugjöfum en önnur ríki, svo sem Kína og Indland, hafa aukið viðskipti sín við Rússa.