Lögreglan í suðausturumdæminu í Noregi rannsakar nú andlát konu sem fannst látin í íbúð í fjölbýlishúsi í Lørenskog, skammt austur af Ósló, í gær.
„Við erum á vettvangi þar sem látin manneskja fannst. Ekki liggur fyrir enn sem komið er hvort refsiverð háttsemi hafi átt sér stað,“ segir Ivar Myrbø varðstjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Eins og staðan er núna lítum við á andlátið sem grunsamlegt og þess vegna er tæknideild hér að störfum til að reyna að átta sig á því hvað hafi gerst,“ segir hann enn fremur.
Lögregla lætur annars ekki mikið uppi og kýs að greina ekki nánar frá aðstæðum á vettvangi en nokkrar lögreglubifreiðar eru á staðnum.
TV2 hefur það eftir Pål Bjellan, stjórnanda aðgerða á vettvangi, að lögreglu hafi borist tilkynning um klukkan 13:30 í gær, 11:30 að íslenskum tíma, en hann vill ekki greina frá efni þeirrar tilkynningar.
„Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla ekki gefið neinar nánari upplýsingar um málið eins og er,“ skrifar lögregla í fréttatilkynningu um líkfundinn.