Forn menningarsamfélög á Íberíuskaganum, þar sem nú eru Spánn og Portúgal, neyttu ofskynjunarlyfja þegar fyrir 3.000 árum, á bronsöld. Þetta sýnir ný rannsókn á mannshári úr gröf á eyjunni Menorca, norðaustur af Mallorca, svo óyggjandi telst, að sögn aðstandenda hennar.
Gröfin, sem hárið fannst í, er ein rúmlega 200 grafa í Es Càrritx-hellinum á Menorca sem líkast til var notaður við helgiathafnir, þar á meðal greftranir, um 600 ára skeið fram til ársins 800 fyrir Krists burð.
Sýnir greiningin á hárinu að sá eða þeir sem það óx á hafi notað ofskynjunarlyf, fengið úr einhvers konar plöntu, sem virðist hafa verið nokkuð sterkt, og telja vísindamennirnir, sem birta grein um uppgötvun sína í vísindaritinu Scientific Reports í gær, líklegt að lyf þetta hafi verið tekið inn til að kynda undir trúarhitanum við athafnir sem haldnar voru í hellinum.
Þá geta rannsakendur sér til um að seiðkarlar hafi komið að athöfnunum og eru þeir taldir hafa „haft stjórn á aukaverkunum plöntulyfsins“ eins og það er orðað í grein rannsakendanna. Sýnir greining hárlokkanna enn fremur að hárið hafi verið litað rautt meðan á athöfnunum stóð og efnið sem neytt var innihaldið atrópín, sem getur virkað slævandi eða örvandi á miðtaugakerfið í stórum skömmtum, skópólamín, sem dregur úr ógleði eða uppköstum, og örvandi efnið efedrín.
Benda rannsakendur á að í hellinum hafi enn fremur fundist ílát þannig merkt að spíral-laga tákn hafði verið skorið í lok þeirra og telja þeir þá merkingu hafa táknað „breytt vitundarástand“ þess sem innihaldsins neytti.
Teljast þessar uppgötvanir hinar merkilegustu þar sem fram til þessa hefur einkum verið sýnt fram á lyfjanotkun í Evrópu á forsögulegum tíma með óbeinum gögnum, svo sem myndum af plöntum sem ristar hafa verið á hluti eða í stein í fyrndinni.