Borgaryfirvöld í Amsterdam hafa farið í auglýsingaherferð til að sporna gegn fjölda breskra ferðamanna sem gera sér ferðir til borgarinnar í svokölluðum „djammferðum“.
Yfirvöld í borginni hafa lengi reynt að fækka þeim sem fara til landsins til þess eins að neyta áfengis og eiturlyfja í óhóflegu magni, einkum til þess að skemmta sér í hinu fræga vændishúsahverfi í borginni.
Herferðin ber titilinn „Haldið ykkur fjarri“ (e. Stay Away) og er henni beint að fólki sem leitar á netinu eftir ákveðnum upplifunum í borginni til að „sleppa fram af sér beislinu“. Til dæmis munu auglýsingarnar blasa við þeim sem leita eftir „pöbbaröltum“ í borginni.
„Þessi herferð mun hefjast í Bretlandi, aðallega er henni beint að ungum mönnum á aldrinum 18 til 35 ára,“ segir í tilkynningu frá borgarráði Amsterdam. Þar að auki verður auglýsingaherferðinni hugsanlega komið á fót í öðrum löndum í Evrópu ef þörf krefur.
Auglýsingarnar sýna „hættur og afleiðingar andélagslegrar hegðunar og óhóflegrar neyslu á vímuefnum og áfengi“ og þar á meðal eru sektir, handtökur, brot sem rata á sakaskrá, innlagnir á spítala og alvarleg heilsuvandamál sem felast í mikilli áfengis- og vímuefnaneyslu.
Borgaryfirvöld lögðu nýlega bann við kannabisreykingum í vændishúsahverfinu. Einnig voru settar takmarkanir á áfengisneyslu á svæðinu og á kaffistofum, auk þess sem veitingahúsum var gert að loka fyrr.
Yfirvöld íhuga einnig að flytja vændi yfir í stærri „erótískar miðstöðvar“ í jaðri borgarinnar.