Alríkisdómari í bandaríska ríkinu Texas hefur ógilt leyfi sem bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið samþykkti fyrir tveimur áratugum um öryggi og skilvirkni lyfs fyrir þungunarrof.
Lyfið nefnist mifepristone.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skipaði dómarann íhaldssama í embættið á sínum tíma.
Matvæla- og lyfjaeftirlitið og bandaríska dómsmálaráðuneytið hafa bæði áfrýjað ákvörðuninni. Joe Biden Bandaríkjaforseti segjst ætla að „berjast gegn þessum úrskurði“.
„Málshöfðunin og þessi úrskurður er enn eitt skrefið, sem á sér engin fordæmi, sem snýst um að taka í burtu grundvallarfrelsi kvenna og stofna heilsu þeirra í hættu,“ sagði Biden í yfirlýsingu.
Búist er við því að málið endi í Hæstarétti Bandaríkjanna.