Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, tapaði á dramatískan hátt gegn bandaríska stórmeistaranum Hikaru Nakamura í viðureign sem gæti hafa verið hans síðasta sem ríkjandi heimsmeistari.
Carlsen hyggst ekki gera tilraun til þess að verja heimsmeistaratitilinn þetta árið.
Því náði dramatíkin hæstu hæðum þegar Carlsen lék af sér drottningunni gegn Nakamura á klaufalegan hátt – með því að missa drottninguna á rangan reit (e. mouse slip), og var tölvumúsinni þar um að kenna. Mistökin urðu í úrslitaskák milli Nakamura og Carlsen í Chessable Masters mótinu, netskákmóti sem var streymt á Chess.com.
„Bíddu, hvað gerðist þarna?,“ hrópaði breski stórmeistarinn og lýsandinn David Howell í streyminu. „Hann missti músina!“
Um leið og Carlsen áttaði sig á mistökunum ýtti hann stólnum sínum til baka, sneri sér við svekktur og virtist slá eitthvað.
Carlsen hefur haldið í heimsmeistaratitilinn frá árinu 2013. Hinn rússneski Ian Nepomniatchi og hinn kínverski Ding Liren munu bítast um titilinn í Kasakstan á föstudaginn.
Dramatíska augnablikið hefst á mínútu 3:29:57 eða þegar þrjár klukkustundir, 29 mínútur og 57 sekúndur eru liðnar af streyminu: