Fundust látin um borð

Halden í Noregi, rúma 100 kílómetra suður af Ósló. Maður …
Halden í Noregi, rúma 100 kílómetra suður af Ósló. Maður og kona á fertugs- og fimmtugsaldri fundust látin um borð í báti þar í gærkvöldi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Zairon

Lögreglan í Halden í Noregi, um 100 kílómetra suður af Ósló, rannsakar nú dánarorsök 47 ára gamals karlmanns og 31 árs konu sem fundust látin um borð í báti sem bundinn var við bryggju í Tista þar í bænum.

Það var vegfarandi sem hafði samband við lögreglu um kvöldmatarleytið í gær og tilkynnti um fólkið sem síðast hafði sést til á lífi á fimmtudaginn. Engir ytri áverkar eru á líkum þeirra að sögn lögreglu og þrátt fyrir að vettvangurinn sé innsiglaður og hafi stöðu afbrotavettvangs á frumstigum rannsóknarinnar þykir lögreglu líklegt að fólkið hafi látist af slysförum.

Gasleki meðal mögulegra skýringa

„Við rannsökum nú málið og höldum öllum möguleikum opnum. Eðlilegasta skýringin er þó að þarna hafi orðið slys,“ segir Harald Holmsen, lögmaður lögreglunnar í austurumdæminu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hið sanna komi þó ekki fram fyrr en að aflokinni krufningu en meðal þess sem lögregla telur mögulegt er að gasleki hafi orðið í bátnum.

Hefur lögregla yfirheyrt nokkur vitni vegna málsins, meðal annars þann sem tilkynnti um líkfundinn en hann þekkti fólkið og hugðist heimsækja það.

Gisle Sveen, sem stýrði aðgerðum lögreglu á vettvangi í gærkvöldi, sagði við NRK í gær að þótt slys þætti líkleg skýring gengi lögregla út frá því við rannsóknina að einhvers konar saknæm háttsemi hefði hugsanlega átt sér stað.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert