Bandaríski hæstaréttardómarinn Clarence Thomas segir ekkert athugavert við að hann hafi um árabil þegið lúxusferðir frá milljarðamæringi úr röðum repúblikana.
Hann segir að um „persónulega gestrisni“ hafi verið að ræða sem ekki hafi þurft að greina frá og skrá sérstaklega.
Hinn íhaldssami Thomas var gestur Harlans Crows, sem hefur stutt Repúblikanaflokkinn rausnarlega, á snekkju í Nýja-Sjálandi, flaug í einkaþotum hans víðs vegar um heiminn og gisti reglulega í húsnæði Crows í Bandaríkjunum, að sögn fréttamiðilsins ProPublica.
For decades, Justice Clarence Thomas has secretly accepted luxury trips from a major Republican donor, newly obtained documents and interviews show.
— ProPublica (@propublica) April 6, 2023
The extent and frequency of these apparent gifts to Thomas has no known precedent in modern SCOTUS history... 🧵👇 pic.twitter.com/ROuGuyD6r6
Thomas, sem er 74 ára, hefur starfað lengst allra dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Fréttamiðillinn reiknaði það út að ein ferðin sem hann fór til Indónesíu myndi kosta 500 þúsund dollara, eða hátt í 70 milljónir króna.
Í yfirlýsingu sagði Thomas að samstarfsmenn hans innan dómskerfisins hefðu áður „veitt þau ráð að ekki þyrfti að greina frá persónulegri gestrisni af þessu tagi frá nánum persónulegum vinum sem tengdust engum dómsmálum“.
Núna væri verið að breyta þessum reglum „og það er, að sjálfsögðu, ætlun mín að fylgja þessum viðmiðum í framtíðinni,“ sagði hann.
Framlög Crows til pólitískra hópa innan Repúblikanaflokksins nema yfir 10 milljónum dollara. Þar af hlaut íhaldssamur baráttuhópur sem eiginkona Thomas, Ginni Thomas, stofnaði hálfa milljón dollara, eða 70 milljónir króna, í styrk frá honum.