Feðgin drepin í flugskeytaárás Rússa

Hús sem eyðilagðist í árás Rússa á Zaporizhzhia.
Hús sem eyðilagðist í árás Rússa á Zaporizhzhia. AFP/Andrí Yermak

Fimmtugur maður og ellefu ára dóttir hans fórust þegar rússnesk flugskeyti lentu á húsi í borginni Zaporizhzhia í suðausturhluta Úkraínu.

„Óvinurinn efndi til flugskeytaárásar á Zaporizhzhia og drap enn eina úkraínsku fjölskylduna,“ sagði Sergí Kruk, yfirmaður almannavarna, á samfélagsmiðlum.

Móðirin komst lífs af 

Stúlkan lést í sjúkrabíl, að sögn forseta borgarráðs, Anatolí Kurtiev.

Björgunarsveitir drógu 46 ára móður stúlkunnar út úr húsarústunum og komst hún lífs af úr árásinni. Eldri dóttir hennar var ekki heima hjá sér þegar árásin var gerð.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP/Mikhail Klimentyev

Að sögn Kurtiev lentu tvö rússnesk flugskeyti á íbúðabyggingunni. Bætti hann við að gluggar og þök hefðu skemmst í tugum nærliggjandi húsa.

Zaporizhzhia er eitt af fjórum héruðum Úkraínu sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagðist hafa innlimað á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert