Fundu mannabein á víðavangi

Sveitarfélagið Hå og fleiri sveitarfélög í nágrenni Stavanger í Rogaland …
Sveitarfélagið Hå og fleiri sveitarfélög í nágrenni Stavanger í Rogaland eru á því svæði sem kallast einu nafni Jæren og hét Jaðar í skrifum Snorra Sturlusonar. Segir hann til dæmis af höfðingjanum Erlingi Skjálgssyni sem „sat á Jaðri“. Ljósmynd/Wikipedia.org/Bosc de'Anjou

Lögreglan í suðvesturumdæminu í Noregi hefur komist að þeirri niðurstöðu að bein, sem vegfarandi í páskagöngutúr fann í fjöru við Grødalandstangen í Hå, skammt frá Stavanger, síðdegis í dag séu mannabein.

Frá þessu greindi lögreglan á Twitter nú undir kvöld en hennar gæti beðið snúið verkefni við að bera kennsl á eiganda beinanna þar sem þau bera þess merki að hafa legið góða stund í fjörunni auk þess sem engar leifar af fötum, skartgripum eða nokkru öðru, sem hugsanlega gæti gefið snefil af vísbendingu, fundust á eða hjá beinunum.

Ekki eini beinafundurinn þessa páska

„Þetta mun taka tíma. Það er eljuverk að bera kennsl á bein,“ segir Olaug Bjørnsen varðstjóri í samtali við norska dagblaðið VG. Enn fremur segir hún lögreglu ekki vera kunnugt um að nokkurs sé saknað þarna á svæðinu um þessar mundir.

Lögregla var með töluverðan viðbúnað á Grødalandstangen eftir að göngugarpurinn tilkynnti um beinin í dag en þessi mannabeinafundur er reyndar ekki sá eini í Noregi þessa páska.

Í Åsane í Bergen var annar vegfarandi á göngu í hádeginu á föstudaginn og gekk sá einnig fram á mannabein sem í því tilfellinu voru dreifð um nokkuð stórt svæði og báru þess merki að þar væri nánast öll manneskjan á ferð – eða leifar hennar, beinin í Rogaland voru hins vegar ekki öll til staðar miðað við mannslíkana í heild sinni.

Åsane í Bergen voru eitt sinn eigið sveitarfélag í Hordaland-fylki …
Åsane í Bergen voru eitt sinn eigið sveitarfélag í Hordaland-fylki en eru nú hluti af Bergen. Ljósmynd/Wikipedia.org/Svein Harkestad

Á beinunum í Bergen voru tætlur af fatnaði sem gæti auðveldað rannsakendum að bera kennsl á hinn látna eða hina látnu, segir Knut Dahl-Michelsen, varðstjóri í vesturumdæminu, við VG. Eins og í hinu tilfellinu hefur lögregla engar upplýsingar um fólk sem saknað er á svæðinu um þessar mundir.

VG

VGII (Beinin í Bergen)

NRK

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert