Hetjudáð ísklifrara sem hrapaði til bana

Eitt ísbjarganna sem féllu til jarðar.
Eitt ísbjarganna sem féllu til jarðar. Ljósmynd/Lögreglan í Duchesne-sýslu

Banaslys varð á pálmasunnudag í Utah-ríki í Bandaríkjunum þegar þrír ísklifrarar voru á leið upp foss í klakaböndum, hluta Raven-fossanna í grennd við Indian-gljúfur sem er í Norðaustur-Utah en fossar þessir eru vinsæll vettvangur ísklifuráhugafólks.

Hluti ísbrynjunnar brast þá og féll karlmaður í hópnum við það til jarðar, um 40 fet að sögn lögreglunnar í Duchesne-sýslu, en það eru um þrettán metrar. Hann slasaðist alvarlega og var fluttur með þyrlu á sjúkrahús.

Verr fór fyrir Margaret „Meg“ O'Neill, 43 ára gömlum lögmanni og þekktum ísklifrara á svæðinu. Henni tókst að bjarga lífi þriðja klifrarans í hópnum, 21 árs gamallar konu, með því að ýta við henni þannig að hún varð ekki fyrir einum klumpanna sem féllu niður þegar ísinn brast skyndilega.

Flestar þekkt Meg hálfa ævina

O'Neill sjálf hrapaði hins vegar til jarðar með ísnum. Hinni konunni tókst að komast niður á fasta jörð og aka svo bifreið þar til hún var komin inn fyrir þjónustusvæði farsíma og gat hringt í neyðarlínu.

Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang fannst O'Neill látin undir ísfargi. Auk lögmennskunnar var O'Neill varaformaður samtakanna Embark Outdoors, eins konar góðgerðarsamtaka sem aðstoða konur og stúlkur úr hópi flóttafólks við að brjótast til mennta í nýjum heimkynnum auk þess að kynna þeim útivistaríþróttir ýmsar, svo sem ísklifur.

„Flestar stúlkurnar okkar hafa þekkt Meg hálfa ævi sína, hún hefur verið þeim fyrirmynd síðan í sjöunda bekk,“ segir í minningargrein á Instagram-síðu Embark Outdoors og formaður samtakanna, Camille Fiducia, sagði í viðtali við Fox 13 að hin látna hefði átt sér aðdáunarverða afrekaskrá í klifrinu og verið þaulreynd, en hin sanna ástríða hennar hefði verið að hjálpa öðrum.

NPR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert