Maður á fimmtugsaldri er í haldi lögreglunnar í Kristiansand í Noregi eftir að annar á sama aldursskeiði fannst látinn í íbúð í Mosby þar í bænum upp úr miðnætti í nótt að norskum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Ulrik Skaar Klokkehaug, lögmanni lögreglunnar í Agder, hafði hinn látni hlotið stórfella áverka sem voru dánarorsökin.
„Enn sem komið er höfum við ekki flokkað þennan atburð sem manndráp,“ segir Klokkehaug við norska ríkisútvarpið NRK og kveður þá ákvörðun byggða á upplýsingum sem lögregla hafi aflað sér. Hann segir of snemmt að segja til um tengslin milli mannanna en kveður skyldleika þó ekki til að dreifa svo vitað sé.
Hinn handtekni sætir yfirheyrslum í dag og hefur honum verið skipaður verjandi, Vibeke Knutsen, sem segir of snemmt að ræða afstöðu skjólstæðings hennar til sakar í málinu. „Þetta er svo nýtt enn þá að ég er ekkert farin að fá að tala við hann að ráði enn þá,“ segir verjandinn.