Síðasti saksóknari Nürnberg-réttarhaldanna látinn

Benjamin Ferencz árið 2015 í New York-borg í Bandaríkjunum.
Benjamin Ferencz árið 2015 í New York-borg í Bandaríkjunum. AFP/Kena Betancur

Benjamin Ferencz, síðasti eftirlifandi saksóknari Nürnberg-réttarhaldanna, er látinn 103 ára að aldri.

Bandaríkjamaðurinn Benjamin Ferencz var aðeins 27 ára gamall og ekki með neina reynslu af réttarhöldum þegar hann varð einn af yfirsaksóknurum réttarhaldanna sem hófust 20. nóvember 1945 í borginni Nürnberg í Þýskalandi.

Þar voru helstu leiðtogar Nasistaflokksins dæmdir fyrir stríðsglæpi sem framdir voru í seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða fyrsta alþjóðlega stríðsglæpadómstól sögunnar.

Ferencz var falið að lögsækja leiðtoga Einsatzgruppen, sérstakra morðsveita sem urðu fleiri en milljón manns að bana.

Af þeim 22 nasistum sem Ferencz sakfelldi voru fjórir teknir af lífi.

Harvard-lögfræðingur af gyðingaættum

Ferencz fæddist í Austur-Evrópu árið 1920. Stuttu seinna fluttu foreldrar hans, sem voru gyðingar, með hann til Bandaríkjanna.

Hann útskrifaðist frá lagadeild Harvard-háskóla árið 1943 og þjónaði í bandaríska hernum í seinni heimsstyrjöldinni. Þar starfaði hann fyrir stríðsglæpadeild hersins þar sem hann kannaði nýfrelsaðar fangabúðir til að safna sönnunargögnum um voðaverkin sem þar voru framin.

Ferenz lést í svefni af náttúrulegum orsökum í gær í bandaríska ríkinu Flórída, að sögn Donalds Ferencz, sonar hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka