Vopnuð lögregla eftir að þrír voru eknir niður

Norska lögreglan ber vopn um stundarsakir eftir atburðinn í Steinkjer …
Norska lögreglan ber vopn um stundarsakir eftir atburðinn í Steinkjer í nótt. AFP

Lögregla um allan Noreg hefur fengið skipun um að bera skotvopn eftir að þrítugur maður í Steinkjer í Þrændalögum ók vörubifreið upp á gangstétt og á þrjá vegfarendur þar á þriðja tímanum í nótt að norskum tíma. Lést einn vegfarendanna af sárum sínum í dag, maður á þrítugsaldri, en hinir tveir hlutu ekki alvarleg meiðsl.

Lögregla brá skjótt við og lokaði Kongens gate í Steinkjer þar sem atburðurinn átti sér stað. Var ökumaðurinn handtekinn skammt frá vettvangi og liggur nú formlega undir grun um manndráp af gáleysi eins og venjan er þegar ekið er á manneskju með banvænum afleiðingum.

PST fengið ábendingar um manninn

Hélt lögreglan í Þrændalögum blaðamannafund um málið í dag og viðraði þar þær grunsemdir sínar að ökumaðurinn hefði ekið á fólkið af ásettu ráði. Reyndist hann hafa vakið athygli lögreglu áður, oftar en einu sinni, og hefur lögregla séð ástæðu til að vekja athygli öryggislögreglunnar PST á manninum oftar en einu sinni.

„Lögreglan lítur þennan atburð mjög alvarlegum augum. Við höfum hafist handa við að yfirheyra vitni auk þess sem tæknirannsóknir standa yfir,“ sagði Malin Borg, lögmaður lögreglunnar, á fundinum.

Skipaður verjandi ökumannsins, Anne Marstrander-Berg, kveður atburðinn ekki hafa verið neitt viljaverk. „Ég álít þetta harmleik. Ég efast um að hér hafi verið aðhafst af vilja,“ segir hún við norska ríkisútvarpið NRK.

Dómsmálaráðherra harmar

Í fréttatilkynningu frá ríkislögreglustjóra Noregs í dag kemur fram að lögregla um allt land skuli ganga með skotvopn í kjölfar atburðarins. „Ástæða verknaðarins er enn óþekkt og aðstæður eru óljósar,“ er haft eftir Benedicte Bjørnland ríkislögreglustjóra í tilkynningunni. Því muni lögregla ganga með vopn um stundarsakir, þar til málin skýrast.

Emilie Enger Mehl dómsmálaráðherra kveður atburðinn sorglegan. „Hugur minn er hjá aðstandendum, þeim sem hlutu meiðsli og öllum öðrum í samfélaginu í Steinkjer eftir þennan sorgaratburð,“ segir ráðherra við NRK.

NRK

VG

TV2

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert