Áður dæmdur fyrir að reyna að valda lestarslysi

Bærinn Steinkjer í Þrændalögum. Maður verður leiddur fyrir dómara í …
Bærinn Steinkjer í Þrændalögum. Maður verður leiddur fyrir dómara í dag og gæsluvarðhaldskrafa lögreglu tekin þar fyrir en hann er grunaður um að hafa ekið á þrjá vegfarendur aðfaranótt páskadags. Steinkjer og umhverfi eru merkilegir staðir í sögunni, þar hafa miklar fornleifar fundist og 113 grafir fornmanna. Þar sátu enn fremur þeir hálfbræður, Sveinn og Eiríkur Hákonarsynir Hlaðajarlar, er þeir réðu ríkjum í Noregi í skjóli Sveins Danakonungs tjúguskeggs. Ljósmynd/Wikipedia.org/Havardzeiner

Tilraun til að valda alvarlegu lestarslysi og hótanir um hryðjuverk er meðal þess sem hinn grunaði í Steinkjer-málinu í Þrændalögum í Noregi aðfaranótt páskadags hefur hlotið dóm og umtal fyrir en eins og fram kom í fréttum í gær hafði lögregla í fleiri en einu tilfelli vakið athygli öryggislögreglunnar PST á manninum vegna hugsanlegrar hættu er af honum stafaði.

Var maðurinn dæmdur til eins og hálfs árs óskilorðsbundinnar fangelsisvistar árið 2017 fyrir að leggja brunnlok úr stáli og stóran stein á járnbrautarteina í Steinkjer. Að sögn vitna frá Bane Nor, fyrirtækis sem annast rekstur og viðhald brautarteina í Noregi, brást viðvörunarkerfi við aðskotahlutum á teinunum áður en vöruflutningalest ók á þá sem hefði getað valdið alvarlegu slysi.

Stríðir við væga þroskahömlun

Viðurkenndi maðurinn brot sitt að mestu leyti, þó ekki að ásetningur hans hefði staðið til þess að valda slysi. Sérfræðingar, sem kvaddir voru til að meta andlegt ástand mannsins, báru við aðalmeðferð að hann stríddi við væga þroskahömlun og ætti erfitt með að sjá fyrir afleiðingar gjörða sinna.

Sama ár, 2017, áður en meðferð brautarteinamálsins hófst, hafði maðurinn uppi hótanir, sem hann sendi skriflega frá sér í skilaboðum til nokkurra kunningja á samfélagsmiðlum, um að hann ætlaði sér að myrða fjölda manns og ganga svo rækilega til verks að verk fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks virtust léttvæg í samanburðinum. „Ég vona að Breivik verði eins og smástrákur í samanburði,“ skrifaði hann meðal annars.

Sviptur ökuréttindum með dómi

Um svipað leyti hafði maðurinn í hótunum við ráðgjafa hjá norsku vinnumálastofnuninni NAV en bar því við fyrir dómi í járnbrautarmálinu að hvorar tveggja hótanirnar hefðu verið hafðar uppi í því augnamiði að flýta fyrirtöku dómsmálsins. Þar hafði hann þó ekki erindi sem erfiði. Eins á hann að baki dóm fyrir árás á opinberan starfsmann og fyrir að stýra báti og fjórhjóli ölvaður. Árið 2018 var hann sviptur ökuréttindum með dómi.

Þrátt fyrir þetta er maðurinn skráður eigandi nokkurra ökutækja, þar á meðal vörubifreiðarinnar sem hann ók upp á gangstétt í fyrrakvöld og á þrjá vegfarendur, þar af einn sem lét lífið.

Verður hann leiddur fyrir dómara klukkan 14 í dag að norskum tíma þar sem ákvörðun um gæsluvarðhald verður tekin.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert