Alvarleg hætta fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna

Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon. AFP

Leki háleynilegra bandarískra skjala er talinn skapa „mjög alvarlega“ hættu fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Ljósmyndir af skjölunum hafa verið birtar á Twitter, Telegram, Discord og fleiri miðlum undanfarna daga. Talið er að mörg þeirra gætu hafa verið í dreifingu á netinu í margar vikur eða mánuði.

Málið er til rannsóknar hjá bandaríska dómsmálaráðuneytinu og virðast skjölin innihalda leynilegar upplýsingar um stríðið í Úkraínu, sem og viðkvæmar greiningar á bandamönnum Bandaríkjanna.

„Afhending á viðkvæmu leynilegu efni getur haft gríðarlegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir þjóðaröryggi okkar, heldur gæti það leitt til þess að fólk týni lífi,“ sagði Chris Meagher, aðstoðarmaður varnarmálaráðherra í dag.

Áhyggjur af því að fleiri skjöl verði birt

Bandarísk stjórnvöld vinna nú að því að fjarlægja skjölin af netinu og eru mörg þeirra nú ekki lengur aðgengileg á þeim miðlum þar sem þau birtust fyrst.

„Við erum enn að rannsaka hvernig þetta gerðist, sem og umfang málsins,“ sagði Meagher og bætti við að teymi innan Pentagon væri að skoða hvort skjölin séu ófölsuð.

„Myndir virðast sýna skjöl á svipuðu sniði og þau sem notuð eru til að veita háttsettum leiðtogum okkar daglegar uppfærslur á aðgerðum tengdum Úkraínu og Rússlandi, sem og aðrar uppfærslur leyniþjónustunnar,“ sagði hann og bætti við að sumum þeirra virtist hafa verið breytt.

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, lýsti áhyggjum yfir því að fleiri skjöl ættu eftir að birtast.

„Við vitum ekki hverjir bera ábyrgð á þessu og við vitum ekki hvort þeir hafa meira sem þeir ætla að birta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert